European Commission logo
Búa til notendanafn
Hægt er að velja fleiri leitarorð með því að nota kommu á milli orða

EPALE - Electronic Platform for Adult Learning in Europe

Auðlind

GOAL - nýtt evrópskt þróunarverkefni: Ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna námsmenn – þar sem áhersla er lögð á að ná til þeirra sem standa illa að vígi gagnvart námi

Profile picture for user Sigrun Kristin Magnusdottir.
Sigrun Kristin Magnusdottir

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) tekur þátt í nýju þriggja ára verkefni sem Erasmus+, mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun Evrópusambandsins styrkir. Verkefnið heyrir undir aðgerðaáætlun 3 („Key action 3“) sem veitir styrki í verkefni þar sem þróaðar eru nýjungar í menntamálum í alþjóðlegu samstarfi og er ætlað að hafa stefnumótandi áhrif. Verkefnið snýst um að efla samstarf hagsmunaaðila um náms- og starfsráðgjöf fyrir ýmsa jaðarhópa sem standa illa að vígi gagnvart námi og ber íslenska heitið Ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna námsmenn (Guidance and Orientation for Adult Learners - GOAL). FA naut stuðnings Rannís (Landsskrifstofu menntahluta Erasmus+ á Íslandi) og menntamálaráðuneytis við undirbúning verkefnisins.

GOAL-verkefnið miðar að því að undirbúa og framkvæma stefnumótandi tilraun þar sem náms- og starfsráðgjöf fyrir fyrrgreinda jaðarhópa er þróuð og árangur af henni er metinn. Tilraunir verða framkvæmdar í öllum þátttökulöndum verkefnisins sem eru Belgía, Holland, Ísland, Litháen, Slóvenía og Tékkland. Flæmska mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir verkefninu forystu og er í náinni samvinnu við Háskólann í London  (University of London) sem mun sjá um að meta árangur af tilraunum og taka saman heildarskýrslu til að miðla lærdómnum áfram innan Evrópu.  Hver samstarfsaðili ræður til sín rannsóknaraðila sem er tengiliður við bresku matsaðilana og vinnur náið með verkefnastjórum landanna. FA gerði samning við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands um það hlutverk hér á landi. Öll löndin hafa jafnframt samstarfsaðila sem sjá um að vinna beint með hagsmunaaðilum tengdum markhópnum og veita þá ráðgjöf sem þróuð verður. Samstarfsaðilar FA eru Mímir-símenntun og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS).

Staðan í Evrópu
Meirihluti Evrópulanda er enn að fást við áskoranir varðandi tengingar á milli þeirra aðila, stofnana og kerfa sem veita nám og þjálfun. Enn eru of margar kerfislægar hindranir og öngstræti hvað varðar tækifæri til náms. Að auki virðist skorta sveigjanleika og gagnsæi fyrir fólk sem síður leitar sér menntunar. Hlutfall þeirra sem taka þátt í fullorðinsfræðslu hefur lengi staðið í stað og verið um það bil 9% , sem er langt frá settu markmiði Evrópulanda um að minnsta kosti 15% þátttöku fyrir árið 2020. Þátttaka fullorðinna í námi og þjálfun er nátengd læsi og færni til að vinna úr upplýsingum. Þeir sem búa yfir mikilli færni sækja sér frekar símenntun á meðan hinir sem hafa minni færni leita sér síður menntunar (Survey of Adult Skills (PIAAC) (2012), Tables A5.7 and A5.8 (L).).

Algengt er að fólk með litla færni sé að fást við margslungnar áskoranir: félagslegar, fjárhagslegar, heilsutengdar og námstengdar, sem þarf að nálgast á heildrænan hátt og með samstarfi eða öflugu tengslaneti hagsmunaaðila. Þessum hópi hefur aukinheldur oft mistekist í námi og hefur því neikvæða reynslu af skólagöngu, ásamt því að fást við afneitun, vonbrigði út í kerfið sem og félagslega- og fjárhagslega erfiðleika. Þetta hefur áhrif á sjálfstraustið og því er mikilvægt að upplýsingar um hentug tækifæri til náms séu veittar á heildrænan hátt. Náms- og starfsráðgjöf gegnir því veigamiklu hlutverki við að greina færni, áhugasvið og námsmarkmið hvers og eins þannig að hægt sé að þróa einstaklingsmiðaðar leiðir. Ráðgjafaþjónustan þarf einnig að vera nægjanlega sveigjanleg til að geta sinnt einstaklingum með ólíkan bakgrunn og reynsluheim. Skilgreina þarf hentugar leiðir til að meta þá þekkingu og færni sem einstaklingurinn býr yfir og finna henni farveg. Jafnframt þarf að hvetja hann til að axla ábyrgð og styðja hann í að taka ákvarðanir út frá eigin þörfum (P. Federighi et al (2009) Enabling the low-skilled to take their qualifications "one Step Up" ).

Sum samstarfslandanna hafa nú þegar komið á laggirnar ráðgjafaþjónustu fyrir fullorðna námsmenn og/eða þróað stefnumótunaráætlanir sem snúa að náms- og starfsráðgjöf. Staðan er þó víða sú að þjónustan og uppbygging hennar nær ekki nógu vel til þeirra sem mest þurfa á því að halda að komast í nám eða þjálfun. Jafnframt þarf að samstilla og efla samstarf á milli þjónustuaðila. Iðulega er of mikil áhersla lögð á að koma fólki sem fyrst í tímabundið starf og minna fer fyrir því að skilgreina mögulegar námsleiðir sem leitt gætu til þess að einstaklingar komist í hentugt starf til lengri tíma og verði þannig virkari í samfélaginu. Það er því afar brýnt að þróa aðferðir sem byggja á safngreiningu (e. meta-analyses, þar sem safnað er upplýsingum úr nokkrum sjálfstæðum tilraunum) á þeim kerfum, þjónustu, tækifærum og þörfum sem eru fyrir hendi til að ná sérstaklega til fólks með litla formlega menntun. Á þeim þremur árum sem verkefnið varir, er ætlunin að skilgreina viðmið, skilyrði og mikilvæga þætti sem stuðla að árangri, þannig að byggja megi upp stuðning frá stefnumótunaraðilum og hagsmunaaðilum við að yfirfæra viðeigandi aðferðir í löndum samstarfsaðila.

Samstarfsaðilar munu beina sjónum að þessu viðfangsefni, hver í sínu landi, með það að markmiði að setja þarfir fólks með stutta formlega menntun og fyrrgreinda jaðarhópa í forgrunn, þannig að skilgreina megi leiðir til að virkja það til náms, í samstarfi við helstu hagsmunaaðila.

Þörf fyrir ráðgjöf um nám á meðal fólks sem stendur illa að vígi gagnvart námi

Á vettvangi framhaldsfræðslunnar hefur á undanförnum 10 árum verið byggð upp öflug náms- og starfsráðgjöf fyrir fólk með litla formlega menntun með samstarfi FA og símenntunarmiðstöðva um land allt. Sú ráðgjöf telur nú að jafnað um 10.000 viðtöl á ári. Í upphafi fóru náms- og starfsráðgjafar út í fyrirtækin til að ná til markhópsins. Í kjölfar hrunsins var gerður tímabundinn samningur við Vinnumálastofnun um þjónustu við atvinnuleitendur og komu þá fleiri beint inn á símenntunarmiðstöðvarnar til að sækja þjónustuna. Vitneskja um ráðgjöfina hefur einnig dreifst víða með tímanum og fólk kemur oftar að eigin frumkvæði. Í þessu verkefni er ætlunin að leita samstarfs við aðila sem vinna kerfislega og aðstæðubundið með þeim hópum sem síður sækja sér menntun. Hér á Íslandi er horft til þess að efla samstarf vegna þessa meðal annars við félagsþjónustuna, Vinnumálastofnun, sveitarfélög, endurhæfingaraðila, Rauða krossinn og fyrirtæki.

Við þróun ráðgjafarinnar og samstarfsins í kringum hana verður byggt á þeirri þjónustu sem er til staðar í löndunum, en áhersla verður lögð á meiri árangur með auknu samstarfi allra hagsmunaaðila. Skilgreindar verða árangursríkar leiðir til að virkja markhópinn til náms sem nýta má til áframhaldandi stefnumótunar. Á undanförnum árum hefur FA, ásamt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, þróað öfluga náms- og starfsráðgjafaþjónustu innan framhaldsfræðslunnar en þörf er á að færa vettvanginn nær fleiri hópum í því skyni að hvetja til náms. Á Íslandi er ætlunin að ná til 100 manns í tilraunaverkefninu og skiptist hann á svæði Mímis og MSS.

Meginþættir verkefnisins eru að:

  • Koma á og þróa tengslanet og samstarf tengdra hagsmunaaðila/stofnana fyrir þróun verkefnis hérlendis.
  • Þróa sérstakar aðferðir/tæki fyrir þjónustu náms- og starfsráðgjafar sem beinist að hópum samfélagsins sem sækja sér síður menntun (t.d. atvinnuleitendur, einstaklingar hjá félagsþjónustunni, fólk í endurhæfingu og fangar o.fl.).
  • Skilgreina færniþætti sem styðja ráðgjafa í að vinna með sérstakar þarfir markhópsins.
  • Fara með þjónustuna þangað sem markhópinn er að finna (outreach/vettvangsnálgun) í samstarfi við hagsmunaaðila á svæðunum.
  • Auka gæði ráðgjafaþjónustu með það að markmiði að notendur nái hámarks árangri.

Hagsmunaaðilar sem tengjast markhópunum munu mynda samráðshóp verkefnisins. Hlutverk fulltrúa í samráðshópi er að veita ráðgjöf við verkefnavinnuna og þróunarferlið á reglulegum fundum með FA, framkvæmdaraðilum og rannsakendum, meðan á verkefninu stendur. Jafnframt að styðja við framkvæmd tilraunarinnar til að færa náms- og starfsráðgjöf nær jaðarhópunum og efla samstarf tengdra hagsmunaaðila á svæðum framkvæmdaraðila, á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu verkefnisins: www.projectgoal.eu

Frekari upplýsingar veita Fjóla María Lárusdóttir og Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir.

 

Resource Details
Display on portal
ISBN
ISSN 1670-5386
Höfundur gagna
Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, gigja@frae.is, Fjóla María Lárusdóttir, fjola@frae.is
Gerð efnis
Greinar
Land
Ísland
Útgáfudagur
Login (0)

Login or Sign up to join the conversation.

Want to add a resource ?

Don't hesitate to do so!
Click the link below and start posting a new resource!