European Commission logo
Búa til notendanafn
Hægt er að velja fleiri leitarorð með því að nota kommu á milli orða

EPALE - Electronic Platform for Adult Learning in Europe

Blog

Öllum til heilla - samvinnuverkefni um listir

Viðburðaröðin ÖLLUM TIL HEILLA – samtal um samfélagslistir snýst um að auka þátttöku og sýnileika jaðarsettra í íslensku listalífi.

Profile picture for user Margret Sverrisdottir.
Margrét Sverrisdóttir

Viðburðaröðin ÖLLUM TIL HEILLA – samtal um samfélagslistir snýst um að auka þátttöku og sýnileika jaðarsettra í íslensku listalífi og efla þannig menningarleg mannréttindi allra. Það var ReykjavíkurAkademían (RA) sem hafði haustið 2019 frumkvæði að því að koma þessu mikilvæga málefni á dagskrá og ég, sem hef óbilandi trú á áhrifamætti listanna, tók að mér að stýra því. Hér á eftir geri ég stuttlega grein fyrir tilurð og framvindu verkefnisins sem lauk með táknrænum viðburði í tengslum við Listahátíð í Reykjavík vorið 2022.

Hvað eru samfélags- og þátttökulistir?

Breski samfélagslista- og fræðimaðurinn Francois Matarasso útskýrir eðli og birtingarmyndir samfélags- og þátttökulista (e. community/participatory art) í inngangserindi viðburðarraðarinnar en listformin hafa það yfirlýsta markmið að stuðla að valdeflingu og inngildingu (e. inclusion) jaðarsettra einstaklinga og hópa. Í bók sinni A Restless Art (Hin kvika list) lýsir Matarasso því hvernig samfélagslistir urðu til meðal grasrótarinnar í enskumælandi löndum í menningarbyltingu 7. áratugarins og breiddust þaðan út um Evrópu norðanverða. Nú á dögum blómstra samfélagslistir þó einkum í suður- og austurhluta álfunnar enda er það eðli þeirra að eflast í þrengingum.

Hugtakið þátttökulistir lýsir hins vegar skapandi samstarfi faglærðs og ófaglærðs listafólks þar sem faglærða listafólkið leggur til tækni- og fagurfræðiþekkingu sína á meðan það ófaglærða er óþrjótandi uppspretta sérfræðiþekkingar um misrétti og jaðarsetningu.

Samfélags- og þátttökulistir eru aðferð almennings til að horfast í augu við aðsteðjandi samfélagsvanda en líka leið ólíkra þjóðfélagshópa til að skapa gagnkvæman skilning með tjáningarformum listanna. Þannig tengjast listformin sjálfsvinnu, velferðarþjónustu, lýðheilsu, mannréttindum og pólitík. Listformin sem lengi fóru leynt eru nú orðin vel þekkt og viðurkennd víða um heim.

Forsaga ÖLLUM TIL HEILLA

Á árunum 2009-2019 tók ég þátt í nokkrum Grundtvig, Erasmus+ og EES-verkefnum fyrir hönd RA. Öll fjölluðu þau um umbreytingar- og inngildingarmátt listanna. Eitt árið bauð ReykjavíkurAkademían tveimur af  félagsráðgjöfum Reykjavíkurborgar í ferð með mér til Bratislava þar sem við tókum þátt í uppsetningu Divadlo bez domova (Leikhúss án heimilis) á frumsömdu verki byggðu á hugmyndum Augusto Boal um leikhús hinna kúguðu. Leikararnir voru öll heimilislaus í einhverri merkingu orðsins; sum landflótta eða götunnar fólk en önnur bjuggu við fatlanir, fátækt eða hvers kyns skerðingar aðrar.

Þegar fulltrúar Divadlo bez domova sóttu okkur heim vorið 2015 notuðu RA og Reykjavíkurborg tækifærið og stóðu fyrir sameiginlegu málþingi um skapandi aðferðir í félagsþjónustu. Fullt var út úr dyrum í Iðnó þennan sólskinsdag í maí. Þangað mætti fólk í velferðarþjónustu og stjórnmálum sem og faglært og ófaglært listafólk sem gladdist við að finna að fleiri höfðu áhuga á að nýta áhrifamátt listanna í vinnu með fólki sem sett hefur verið á jaðarinn. Umræða um margbreytileika og inngildingu var á þessum tíma byrjuð að blómsta hérlendis en sjálf hélt ég áfram að leita mér innblásturs austar í álfunni þar sem mér fannst svo margt gott vera að gerast.

Öllum til heilla

Einstakt samtal

Haustið 2019 stakk ég upp á að ReykjavíkurAkademían og Reykjavíkurborg blésu til annars málþings um inngildingu í listum sem varð æ  meira áberandi í samfélagsumræðunni. Málþingið var fyrirhugað vorið 2020 og í undirbúningshópinn bættust Listaháskóli Íslands, Listahátíð í Reykjavík og Öryrkjabandalagið. Dagskráin var að mestu tilbúin þegar heimsfaraldur skall á þannig að daglangt málþing í Iðnó breyttist í röð fimm staðbundinna og/eða stafrænna viðburða sem stóðu frá 16. febrúar – 15. júní 2022. Auðvitað var það önugt og erfitt að þurfa að breyta plönum sínum en reyndist þó hin mesta blessun vegna þess að á þeirri löngu vegferð sem verkefnið varð bættust sífellt fleiri í samtalið og auðguðu umræðuna.

Ég þori næstum að fullyrða að samtalið í verkefninu ÖLLUM TIL HEILLA sé einstakt á heimsvísu. Þar hittust eftirtaldir aðilar til að vinna að framgangi skapandi, valdeflandi og inngildandi starfs; hagsmunasamtök fatlaðra (Öryrkjabandalag Íslands), velferðar- og trúarsamtök (Hjálpræðisherinn), opinberir aðilar (Reykjavíkurborg og menningarráðuneytið), menningarstofnanir (Listahátíð í Reykjavík, Borgarleikhúsið og List án landamæra), rannsóknar- og menntastofnanir (ReykjavíkurAkademían og Erasmus+) og fagfélög listamanna (Bandalag íslenskra listamanna). Og enn eru einstaklingar, samtök og stofnanir að bætast í umræðuna sem vonandi lifir áfram undir formerkjum ÖLLUM TIL HEILLA þótt formlegri aðkomu ReykjavíkurAkademíunnar að verkefninu sé nú lokið.

Raddir hverra heyrast ekki í íslensku listalífi?

Á vef verkefnisins má finna fjóra af fimm viðburðum, textaða á ensku og túlkaða á íslenskt táknmál. Lokaviðburðurinn var hins vegar hvorki tekinn upp né sendur út sökum þess viðkvæma samtals sem þar fór fram. Það var Klúbbur Listahátíðar sem stóð fyrir svokölluðu Langborði, umræðugjörningi sem hafnar stigveldi og óaðgengileika sem oft einkennir hefðbundin málþing. Því miður sáu fáir stjórnendur menningarstofnana sér fært að mæta á Langborðið sem bar nafnið Raddir hverra heyrast ekki í íslensku listalífi? Hins vegar fjölmenntu hin raddlausu í Iðnó þennan júnídag og sögur þeirra voru sláandi.

Samkvæmt Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, á réttur allra til að skapa og njóta menningar og lista að vera tryggður. Þegar ég horfi til baka til áranna þriggja í ÖLLUM TIL HEILLA þykist ég sjá hvernig áherslan hefur breyst og hvar skóinn kreppir helst núna. Í upphafi töluðum við um að deila skapandi og valdeflandi hugmynda- og aðferðarfræði en um þessar mundir snýst hvert málþingið á fætur öðru hér í Reykjavík um menningarleg mannréttindabrot á jaðarsettum hópum sem hafa ekki aðgang á við aðra að listmenntun, listasenunni, styrkjum til listsköpunar og umfjöllun fjölmiðla.

Þótt ÖLLUM TIL HEILLA sé lokið er umfjöllunarefnið ennþá brýnt og ég óska verkefninu framhaldslífi sem sameiginlegur vettvangur þeirra valdlausu og hinna sem valdið hafa.

 

Björg Árnadóttir, ReykjavíkurAkademíunni (RA)

 

 

 

Login (0)
Efnisorð

Login or Sign up to join the conversation.

Want to write a blog post ?

Don't hesitate to do so!
Click the link below and start posting a new article!

Nýjustu umræður

Profile picture for user EPALE Moderator.
EPALE Editor

Virk samfélagsleg þátttaka á efri árum og nám þvert á kynslóðir

Þegar litið er til lýðfræðilegra breytinga (demographic change) í Evrópu kemur í ljós að hlutfall eldra fólks í öllum Evrópusambandslöndunum er hátt og fer hækkandi. Þess vegna er afar áríðandi að boðið sé upp á hágæða námsefni, sem sniðið er að þörfum eldra fólks og að fólkið sjálft sé haft með í stefnumótun í símenntun og virkri þátttöku í samfélaginu. 

Meira