Skip to main content
News
Fréttir

Aðgengi fullorðinna að námi á framhaldsskólastigi: Stofnana- og aðstæðubundnar hindranir á menntavegi

 

Útdráttur

 

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvaða hindranir mæta fullorðnu fólki sem hefur hug á að ljúka námi á framhaldsskólastigi. Tekin voru viðtöl við átta einstaklinga á aldrinum 25–30 ára sem stunda nám á vegum framhaldsfræðslunnar og eru í aðfaranámi. Í frásögnum þeirra vógu aðstæðu- og stofnanabundnar hindranir mun þyngra en viðhorfsbundnar hindranir. Helsta hindrun nemendanna var fjármögnun námsins þar sem unga fólkið býr við þröngan fjárhag og er með fjölskyldu á framfæri. Flókið reyndist að samþætta fjölskyldulíf og vinnu með námi og það skapaði mikið álag í lífi þess. Einnig kom fram að upplýsingar um nám og fjárstuðning í boði eru oft óljósar og viðmælendur töldu að framboð og skipulag náms kæmi ekki nægjanlega til móts við þarfir þeirra fyrir stuðning og sveigjanleika. Þátttakendur sýndu frumkvæði og þrautseigju við að yfirstíga margvíslegar hindranir sem þeir mættu á menntaveginum. Hvatinn að rannsókninni er ekki síst sá að stjórnvöld hafa sett markmið um hærra menntunarstig þjóðarinnar en afar hægt gengur að ná þeim markmiðum. Rannsóknin getur því nýst stjórnvöldum við stefnumótun og menntastofnunum og aðilum fullorðinsfræðslu við að fækka stofnana- og aðstæðubundnum hindrunum á vegi fullorðinna námsmanna.
Rannsóknin birtist í Tímariti um uppeldi og menntun og hægt er að nálgast hana í heild sinni HÉR
 
 
Um höfunda: 

Elín Sif Welding Hákonardóttir

Elín Sif Welding Hákonardóttir (elinsifw@gmail.com) lauk BA-prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands 2014 og MA-prófi í náms- og starfsráðgjöf frá sama skóla 2016. Hún var í vettvangsnámi á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og að námi loknu starfaði hún á Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Hún starfar nú sem verkstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði.

 

Sif EinarsdóttirHáskóli Íslands

Sif Einarsdóttir (sif@hi.is) er prófessor við námsbraut í náms- og starfsráðgjöf á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Hún er með doktorsgráðu í ráðgefandi sálfræði frá University of Illinois, Champaign – Urbana. Hún hefur stundað rannsóknir á starfsáhuga fyrst og fremst en einnig á náms- og starfsferli ólíkra samfélagshópa.

 

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir (gigja@frae.is) starfar sem sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún lauk MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands 2006 og diplóma í sömu grein frá Háskólanum í Þrándheimi í Noregi 1991. Hún hefur rannsakaði einelti meðal framhaldsskólanema og hefur verið leiðbeinandi í MA-rannsóknum sem tengjast ráðgjöf til fullorðinna námsmanna.

 

Gestur GuðmundssonHáskóli Íslands

Gestur Guðmundsson (gesturgu@hi.is) er prófessor í félagsfræði menntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann er með doktorsgráðu frá Kaupmannahafnarháskóla 1991, hefur starfað sem lektor við Danmarks Pædagogiske Universitet og sem prófessor við Syddansk Universitet, en hefur verið prófessor við Kennaraháskóla Íslands og síðar Menntavísindasvið Háskóla Íslands síðan 2005. Hann hefur einkum fengist við rannsóknir á menningu og menntun ungmenna.

Login (0)

Login or Sign up to join the conversation.

Langar þig að skrifa grein?

Ekki hika við það!

Smelltu á krækjuna hér fyrir neðan og byrjaðu að skrifa!

Nýjustu umræður

Virk samfélagsleg þátttaka á efri árum og nám þvert á kynslóðir

Þegar litið er til lýðfræðilegra breytinga (demographic change) í Evrópu kemur í ljós að hlutfall eldra fólks í öllum Evrópusambandslöndunum er hátt og fer hækkandi. Þess vegna er afar áríðandi að boðið sé upp á hágæða námsefni, sem sniðið er að þörfum eldra fólks og að fólkið sjálft sé haft með í stefnumótun í símenntun og virkri þátttöku í samfélaginu. 

Meira